26.7.2010 | 17:46
Ferðasagan
Mikið ofsalega er ég ánægð með þessa göngu, ferðafélagana og ekki síst manninn minn sem snérist í kring um mig og bar allt fyrir utan vatnið mitt.
Á föstudeginum fórum við inn í skálann við Sveinstind og fórum síðan á Sveinstind, strax í upphafi hugsaði ég um hvort ég ætti að snúa við, en ég er þrjóskari en svo og fór fetið upp á fjallið en þegar ég var næstum komin upp varð ég svo þreytt að ég ákvað að fara bara í rólegheitum aftur niður en varð svo litið á gps tækið mitt og sá að ég átti nema einhverja 20-30 metra hækkun eftir svo að ég þrjóskaðist við og upp fór ég, ég sé sko ekki eftir því, skyggnið var ekkert, bara þoka og rigning en samt var ég svo glöð yfir að hafa komist upp á toppinn. Svo fórum við í skálann og borðuðum þar hangikjöt, kartöflur og uppstúf, það hefur sjaldan bragðast eins vel.
Á laugardeginum var mjög fínt, gengum 17.5 km, byrjuðum í blautu en svo var hið besta veður þegar við komum í Skælinga. Ég verð að viðurkenna að ég var orðin mjög þreytt þegar við komum í skála en ánægjan var mikil yfir að hafa komist þessa leið og njóta alls sem náttúran hafði upp á bjóða, leirböð, kynjamyndir í hrauni eða falleg blóm.
Sunnudagurinn heilsaði okkur með dumbungi og var frekar blautur og ég var því frekar fegin að þurfa ekki að reyna að þurrka fötin okkar í skála, heldur geta farið með þau heim og þurrkað þau þar. Í upphafi leiðarinnar villtumst við aðeins og það var mikið príl og klungur til að komast á rétta leið aftur, þegar ég var að príla þetta þá hvarflaði að mér að nýta mér 112 og athuga hvort að þyrlan skryppi nú ekki bara eftir mér. En sem betur fer komst ég upp og 17km leið á leiðarenda í Hólaskjóli. Ég er ekki viss um að hafa getið gengið lengra í þessari ferð en markmiðið er að vera í betra formi næsta sumar í næstu göngu :)
Ég verð nú að hrósa göngufélögunum, allir voru þeir sprækari en ég en enginn sagði neitt jafnvel þó að þau þyrftu oft að bíða eftir mér, ég var heldur ekki til stórræðana þegar í skálana var komið en sama hver var, allir voru bara frábærir og styðjandi.
Vefjagigtin hamlaði mér nokkuð með því að ég fékk ekki nóg súrefni í vöðvana og þeir örmögnuðust og ég þurfti að stoppa oft til að láta þá ná súrefninu, þetta gilti reyndar bara í bratta en það skipti ekki máli hvort að það var þúfa eða fjall, það reyndi mikið á lær- og kálfavöðvana vegna þess að þeir þurfa mikið súrefni sem var síðan eitthvað tregt flæði á. Eins vildi hjartað stundum slá of hratt, sérstaklega seinni partinn þegar lyfin sem hægja á hjartanu hættu að virka. En ég komst þetta allt saman, ég held reyndar að ég sé þrjóskari en ......... og ég fái styrk frá æðri máttarvöldum til þess að geta þetta. Og svo er það þessi dásamlegi maður sem ég er gift og er hrædd um að ég fari ekki mikið án hans.
En kæru vinir- gönguhópurinn Taumlaus gleði- takk fyrir mig knús og kossar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2010 | 09:05
tóm hamingja
Í gær var umræða um fjórhjól, Söndru langar svo í svoleiðis og það versnaði um allan helming þegar hún fékk að prófa eitt slíkt í gær, en þau fóru að skoða á netinu feðginin og töluðu fjálglega um þetta og hitt fjórhjólið sem kostaði fúlgur fjár og þá segi ég:" Ef að þið fáið ykkur fjórhjól þá vil ég fá......" eins og kenjakrakki, EN mér datt ekkert í hug sem mig langaði í, það var dálítið merkilegt að uppgötva allt í einu að maður ætti allt sem maður óskaði sér og þurfti ekki meira ( í bili allavega).
Mér finnst þetta rosalega góð tilfinning, því að mér hefur fundist stundum hamingja manns felast í hlutum og hugsar oft ef að ég fæ svona eða geri svona þá breytist allt til batnaðar, en núna er ég ánægð í eigin skinni og eigin lífsgæðum sem eru ríkuleg, ætla ekki að draga úr því. Ég held að trygglyndi og ást minna nánustu sé það sem er mikilvægast fyrir mig í dag.
Í dag fer ég í gönguna og vikan er búin að vera heilmikill tilfinningarússibani, eina stundina er ég hætt við að fara vegna kvíða og hina stundina verður þetta ekkert mál. Í dag er ég raunsæ, þetta á eftir að reyna á en þetta verður fyrst og fremst skemmtileg ferð í góðra vina hópi.
Knús á línuna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2010 | 20:32
Sumarið er tíminn....
Var að koma úr útilegu í Húsafelli með góðu fólki. Það var bara meiriháttar, mikið til legið i leti og drukkið rauðvín, bara ljúft.
Næstu helgi er gönguferðin okkar, förum á föstudaginn í Sveinstind og göngum upp á hann þann dag og á laugardeginum göngum við frá Sveinstindi í Skælinga, eftir því sem ég kemst næst þá er þetta eitthvað svona upp og niður dæmi og nokkuð löng dagleið en síðan er síðasta dagleiðin frá Skælingum í Hólaskjól stutt þannig að þetta ætti ekki að reynast neinum ofraun. Ég ætla að fara þetta á mínum hraða og kannski vill einhver labba með mér síðastur ;). Það er alltaf dáldið mál hjá mér að eiga erfitt í brekkunum og vera langsíðust en ég er að reyna að vinna í hugarfarinu hjá sjálfri mér gagnvart sjálfri mér. Mér er eiginlega alveg sama yfir að vera síðust en mér finnst leiðinlegt ef að ég er að tefja hina í hópnum og vera dragbíturinn. Ég vil frekar ganga ein síðust en að halda aftur af einhverjum. En ég hlakka til að fara þessa leið og ætla að njóta hennar.
Það styttist ótrúlega hratt þetta sumar í annan endann, verslunarmannahelgin eftir hálfan mánuð, þrjár vikur þangað til við förum út og skólinn byrjar daginn eftir að við komum heim. Og svo verða komin jól áður en maður veit af :)
Hafið það sem allra best. Knús á línuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2010 | 19:02
Huggun í sorg
Eins og regnið hylur stjörnurnar
og haustþokan felur fjallshlíðarnar
og eins skýin dylja himinblámann
eins hylur myrkur sorgarinnar
auglit þitt sjónum mínum.
Og þó veit ég að hönd þín
heldur mér fast í myrkrinu
og það nægir mér. Því þótt ég hrasi og detti
þá sleppir þú mér aldrei. Amen
(Gelísk bæn)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2010 | 12:13
Hvað ef??
Manneskjan sem þú værir reið út í dæi á eftir og reiðin stæði eftir eins og risastór steinn í hjartanu á þér? Væri þá ekki betra að eyða ekki tímanum í að vera reiður heldur fyrirgefa og hafa stjórn reiðinni sem býr innra með þér og nýta orkuna sem fer í að vera reiður í eitthvað annað sem er uppbyggilegt t.d. að rækta sambandið þannig að svona reiði eða sárindi eigi ekki eins greiða leið upp á yfirborðið?
Ég blogga mikið þessa dagana og það er vegna þess að ég er að vinna mikið í samskiptum mínum við aðra og það hafa verið ýmis mál í gangi sem ég fer ekki nánar út í hér og bloggið er mín leið til að koma hlutunum frá mér. Ég er þakklát fyrir að eiga allt þetta góða fólk að og elska það mjög heitt en þegar upp er staðið er það ég sem stjórna minni hamingju og ég sem verð að taka ákvarðanir um hvort ég ætla að vera reið eða sátt við fólkið í kringum mig.
Sáttarknús á línuna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2010 | 19:36
Sólin birtist alltaf aftur.
Ég er farin að sjá sólina og björtu hliðarnar aftur, nú er vissum kafla lokið og það tókst að ljúka honum eins vel og hægt var, svo að nú er hægt að halda áfram.
Ég hef verið dugleg við að æfa mig fyrir gönguna 23-25 júlí ,þá förum við Sveinstind- Skælinga- Hólaskjól- hlakka bara til :) en bakið mitt er eitthvað að angra mig, læt sprauta meira í það og þá ætti það að lagast aftur.
Ég sé alltaf betur og betur hvað ég er vel gift, ekki aðeins frábærum manni heldur er tengdafjölskyldan mín frábær, þau mæta alltaf öll og hjálpa eins og þau geta.
Ég ætla að halda áfram að æfa mig í göngunum og sinna heimilinu og garðinum og fara helst ekkert að heiman, þar sem ég hef engar fastar ferðir, hvorki í sjúkraþjálfun eða að keyra Söndru á leiklistarnámskeið. Svo ætla ég að liggja eins mikið og ég get í hengirúminu minu nýja sem ég keypti í Tiger.
Letiknús
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2010 | 14:55
döööö
Í fyrsta skiipti í gærkvöldi síðan ég fór inn á geðdeild árið 2003, var ég hrædd um að ég gerði tilraun til sjálfmorðs, ég bað manninn minn um að geyma sterku lyfin mín svo að ég freistaðist ekki. Þetta er ömurleg líðan þessa dagana, en í gær varð Örvar minn 20 ára og við héldum veislu í tilefni af því og studentnum sem var mjög skemmtileg og dásamlegt fólkið sem kom og allir hrósuðu mat og drykk í hástert, ég setti upp veisluandlitið, þerraði tárin og brosti og hló þó að ég gréti inni í mér.
Takk fyrir komuna allir-riiiiisssssaaaa knús
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2010 | 22:14
Af hverju?
Skamma ég sjálfa mig þegar eitthvað er ekki mér að kenna?
Líður mér illa þegar aðrir haga sér illa?
kenni ég sjálfri mér um þegar sökin er annarra?
Ég hef verið að skoða síðu sem heitir lausnin.is og er um meðvirkni, mér finnst þessi síða bara mjög góð og á þessari síðu er grein um sjálfshöfnun sem er nokkuð lýsandi fyrir hvernig ég var og þær viðjar sem ég er að brjótast út úr. Ég fór til dæmis í göngu í gær sem var nokkuð krefjandi á köflum og megnið af leiðinni var ég síðust en í stað þess að skamma mig hrósaði ég mér fyrir dugnaðinn en svo þurfti ég eiginlega að skemma allt með því að tala um dragbítinn í lokin en ég er EKKI dragbítur, ég er dugleg að gera það sem ég geri þrátt fyrir að ég eigi í erfiðleikum með það og það myndu bara margir sitja heima og vorkenna sjálfum sér eða sannfæra sig um að þetta sé ekki þess virði. Þegar ég skrifa að ég sé dugleg er það að verða minna og minna kjánalegt, þó að það renni um mig kjánahrollur þegar ég skrifa það ;)
En ég ætla að halda áfram að segja sjálfri mér að ég er dugleg og geti allt sem ég vil og geri BARA það sem MÉR finnst skemmtilegt.
Knús handa öllum sem hafa trú á sjálfum sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2010 | 16:36
Sorg og gleði...
Það hefur verið mikið álag á mörgum síðustu mánuði, flestir í sorg yfir þeim samverustundum sem aldrei verða.
Ég er auðvitað sorgmædd og sakna stóru systur minnar og allar þær góðu stundir sem við áttum saman ylja manni. En svo er ég líka glöð, hennar vegna þess að núna líður henni vel, engar áhyggjur né sorgir sem þjaka hugann, pabbi hefur tekið á móti henni, tekið hendina hennar í sína stóru og heitu hendi og leitt hana inn í ljósið sem umvefur hana nú.
Ég hef þá vissu að hún horfi núna á okkur sem eftir erum og hugsar til okkar en hún vill ekki ósætti eða reiði svo að ég ætla að fyrirgefa og sætta mig við það sem er gert því að fortíðin er að baki, framtíðin er ókomin svo að það er dagurinn í dag sem skiptir máli. Ég held áfram mínu lífi, einni systur fátækari en samt ríkari vegna þeirra stunda sem ég náði að eyða með Gunnu á síðustu dögunum hennar.
Ég ætla að elska fólkið mitt og njóta hverrar stundar með því til fullnustu því að dagurinn í dag er það sem skiptir máli.
Kærleiksknús og kossar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2010 | 09:34
Minning
Gunna systir mín dó í gær, hún leið útaf í svefni, friðsæl og mikil ró yfir henni.
Hennar er sárt saknað en ég er fegin að hún þurfti ekki að þjást meira.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)