Ferðasagan

Mikið ofsalega er ég ánægð með þessa göngu, ferðafélagana og ekki síst manninn minn sem snérist í kring um mig og bar allt fyrir utan vatnið mitt.

Á föstudeginum fórum við inn í skálann við Sveinstind og fórum síðan á Sveinstind, strax í upphafi hugsaði ég um hvort ég ætti að snúa við, en ég er þrjóskari en svo og fór fetið upp á fjallið en þegar ég var næstum komin upp varð ég svo þreytt að ég ákvað að fara bara í rólegheitum aftur niður en varð svo litið á gps tækið mitt og sá að ég átti nema einhverja 20-30 metra hækkun eftir svo að ég þrjóskaðist við og upp fór ég, ég sé sko ekki eftir því, skyggnið var ekkert, bara þoka og rigning en samt var ég svo glöð yfir að hafa komist upp á toppinn.  Svo fórum við í skálann og borðuðum þar hangikjöt, kartöflur og uppstúf, það hefur sjaldan bragðast eins vel.

Á laugardeginum var mjög fínt, gengum 17.5 km, byrjuðum í blautu en svo var hið besta veður þegar við komum í Skælinga.  Ég verð að viðurkenna að ég var orðin mjög þreytt þegar við komum í skála en ánægjan var mikil yfir að hafa komist þessa leið og njóta alls sem náttúran hafði upp á bjóða, leirböð, kynjamyndir í hrauni eða falleg blóm.

Sunnudagurinn heilsaði okkur með dumbungi og var frekar blautur og ég var því frekar fegin að þurfa ekki að reyna að þurrka fötin okkar í skála, heldur geta farið með þau heim og þurrkað þau þar.  Í upphafi leiðarinnar villtumst við aðeins og það var mikið príl og klungur til að komast á rétta leið aftur, þegar ég var að príla þetta þá hvarflaði að mér að nýta mér 112 og athuga hvort að þyrlan skryppi nú ekki bara eftir mér.  En sem betur fer komst ég upp og 17km leið á leiðarenda í Hólaskjóli.  Ég er ekki viss um að hafa getið gengið lengra í þessari ferð en markmiðið er að vera í betra formi næsta sumar í næstu göngu :)

Ég verð nú að hrósa göngufélögunum, allir voru þeir sprækari en ég en enginn sagði neitt jafnvel þó að þau þyrftu oft að bíða eftir mér, ég var heldur ekki til stórræðana þegar í skálana var komið en sama hver var, allir voru bara frábærir og styðjandi.

Vefjagigtin hamlaði mér nokkuð með því að ég fékk ekki nóg súrefni í vöðvana og þeir örmögnuðust og ég þurfti að stoppa oft til að láta þá ná súrefninu, þetta gilti reyndar bara í bratta en það skipti ekki máli hvort að það var þúfa eða fjall, það reyndi mikið á lær- og kálfavöðvana vegna þess að þeir þurfa mikið súrefni sem var síðan eitthvað tregt flæði á.  Eins vildi hjartað stundum slá of hratt, sérstaklega seinni partinn þegar lyfin sem hægja á hjartanu hættu að virka.  En ég komst þetta allt saman, ég held reyndar að ég sé þrjóskari en ......... og ég fái styrk frá æðri máttarvöldum til þess að geta þetta.  Og svo er það þessi dásamlegi maður sem ég er gift og er hrædd um að ég fari ekki mikið án hans.

En kæru vinir- gönguhópurinn Taumlaus gleði- takk fyrir mig knús og kossar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband