Færsluflokkur: Bloggar

lengi lifir í gömlum glæðum

Konan hefur haldið því fram sem fastast að hún sé ekki lengur með félagsfælni, sem er rétt í flestum tilfellum. Hún heldur því meira að segja fram að hún geti miðlað öðrum sem eru með félagsfælni, sem er rétt í flestum tilfellum. Þegar hún er Iðjuþjálfinn þá er hún örugg og veit hvað hún er að gera og er bara góð í því sem hún gerir en stundum læðist gamli púkinn fram og fer að telja konunni í trú um að hún sé alls ekki svona góð í þessu. Það eru þeir sem hún aðstoðar sem eru svona flottir og leyfa konunni að halda að það sé hún sem fái þessar framfarir fram en í raun eru skjólstæðingarnir hennar bara svona aumingjagóðir!

Þessar hugleiðingar koma fram vegna þess að það er verið að breyta heima hjá konunni og mikið af allskonar iðnaðarmönnum ganga þar inn og út og konan finnur fyrir gamalkunnum kvíða þegar hún þarf að taka á móti þessum mönnum og sýna þeim hvað þeir eiga að gera eða jafnvel bjóða upp á kaffi! það er hræðilegt hreint út sagt!

En konan leggur sig fram við að nota bjargráðin sem hún gefur skjólstæðingum sínum og sér fram á að hún lifi þetta alveg af! Og hún ER góð í þessari vinnu og ekki síst vegna þess að hún skilur svo vel hvernig skjólstæðingum hennar líður! 


Sjálfsvíg.

Í dag er alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna. Það hefur verið mikið rætt um sjálfsvíg undanfarið, bæði aðstandendur þeirra sem hafa tekið sitt líf og þeir sem hafa reynt að taka eigið líf.  Mér er málið skylt, því að fyrir 8 árum gerði ég tilraun til sjálfsvígs og hef síðan verið í baráttu við að halda mig í birtunni og láta ekki depurð og kvíða stjórna lífi mínu og dauða.

Lífið mitt hefur tekið stakkaskiptum eftir þetta, ég má ekki til þess hugsa að ef mér hefði tekist að fyrirfara mér því það hefur svo margt jákvætt gerst og margar hindranir hafa verið yfirstignar.  Ég hef sigrast á félagsfælninni, mér hefur tekist að lágmarka depurðina og kvíðann svo að það eru aðeins nokkur stutt köst á ári í stað þess að það voru einn og einn góður dagur, þar sem mér leið vel, áður.

En þetta hefði ekki tekist nema fyrir gríðarlega mikinn stuðning eiginmannsins fyrst og fremst en einnig hafa margir aðrir staðið við bakið á mér og ýtt mér áfram þegar þess hefur þurft og veitt mér hughreystingu þegar ég hef þarfnast þess.    En ÉG hef líka unnið hörðum höndum af því að komast þangað sem ég er í dag og ég er stolt af því sem ég er búin að afreka hingað til og hlakka til þess að LIFA næstu árin og ég er búin að ákveða að lifa svo skemmtilegu lífi að ég verð að verða 100 ára til að ná öllu sem ég hef sett á framtíðar planið, sem þýðir að ég á 60 ár eftir, ekki slæmt ;)

Knús á línuna.


Auðvitað!

Komst ég á leiðarenda, meira að segja fór ég í vinnu daginn eftir og var ekkert eftir mig eftir gönguna. Þessi ganga var í alla staði frábær, allir samstilltir og þessi hópur er að verða svo samstilltur og flottur og allir lögðu sitt af mörkum til þess að ferðin tækist sem best.  Stundum var leiðin erfið, brekkurnar virtust sumar vera endalausar en oftast voru þær líka niður í móti svo að þetta jafnaðist út.

Svo er bara að undibúa sig fyrir næstu göngu http://www.urvalutsyn.is/Aevintyri/Gonguferdir/Oberstdorf/ 

ég er farin að hlakka mikið til hennar og kvíði auðvitað líka (annars héti ég ekki Jóna ;) ).

Svo styttist í skólann, mánuður þangað til ég byrja í vettvangsnáminu, verð á Hrafnistu í 7 vikur.  Og þetta er næst síðasta vettvangsnámið og síðasta skólaárið að renna upp, fjúff þetta er búið að líða hratt og ótrúlegt að ég sé að klára þetta nám og þá þarf ég "bara" að finna mér einhverja nálgun í vinnu.

En núna ætla ég út að labba, knús á línuna.


Tímamót

Núna get ég sagt að ég VAR félagsfælin, þetta er mikill áfangi á minni leið úr kvíða og fælni.  Ég var að spjalla við samstarfskonu mína og sagði þetta og það rann upp fyrir mér að það væri svo sannarlega satt, þetta veitir mér mikla ánægju og finnst ég geta allt og gerir mig enn ákveðnari í að sigrast á öðrum erfiðleikum sem ég stend frammi fyrir.

Ég fékk fyrstu launin mín þessi mánaðarmót og ég var eins og litill krakki að fá fyrstu launin, enda hef ekki unnið utan heimilis í 12 ár.

Víst er ég þreytt þegar ég kem heim úr vinnunni, en þetta er svo mikils virði fyrir mig, ég hef alltaf skammast mín hálfgert að þiggja örorkubætur þó að ég sé ekkert að því að aðrir eru á þeim, allavega þeir sem eru á réttum forsendum, ég bara vil ekki vera á þeim.  Þessi vinna er liður í því að "æfa" mig fyrir þau framtiðarstörf sem ég á vonandi eftir að sinna.

Svo styttist í gönguferðina okkar árlegu, ég hlakka auðvitað mikið til, er viss um að þetta verður frábær ferð, en því miður er púkinn minn á öxlinni að segja að ég verði bara dragbítur og öllum finnst ég vera til trafala. En svo hugsa ég líka að þau láti mig vonandi vita ef að þeim finnst leiðinlegt að bíða eftir mér, því að ég get alveg tekið því, þá gæti ég verið trúss, en ég er bara þakklát fyrir að eiga góða að sem styðja mig. Svo hefur gæslan aldrei sótt mig neitt þannig að ég á það inni ;)

En knús á línuna.


Gleði, gleði, gleði líf mitt er..............

Ákvað að blogga einu sinni vegna gleði og hamingju og þakka fyrir allt sem ég á og hef.

Ég er bara svo þakklát fyrir að eiga svona marga frábæra einstaklinga að, að fá þau tækifæri sem mér hafa verið gefin og ekki síst að hafa krafta til að ná því sem ég hef náð.

Ég hef lokið þriðja árinu í skólanum og þá er bara eitt ár eftir, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Ég er farin að huga að lokaritgerð og er í hóp með tveimur frábærum konum í því.

Ég er komin aftur á vinnumarkaðinn eftir 12 ára hlé a.m.k. og er að vinna á Grensási þrjá daga í viku.  Það er svo gott að vera þarna og finna að allir muna eftir manni síðan í vettvangsnáminu og bjóða mig velkomna aftur.

Ég hef ekkert á móti því að fólk sem þarfnast þess sé á örorkubótum, en ég er himinlifandi að geta stigið skref í áttina frá því að þiggja þær.

Ég geri mér grein fyrir því að ég er ennþá með mín vandamál, en ég hef góða stjórn á þeim og þó að þau láti stundum á sér kræla þá veit ég af þeim og hef mín bjargráð.

Knús og kossar.


Uppljómun...

Ég fór um daginn að fylgjast með eldri stelpunni minni að keppa í boccia á íslandsmóti fatlaðra með Suðra á Selfossi, ekki sakaði að daman átti afmæli svo að það var tekið á móti henni með knúsi og söng og mikil einlægni og hlýja sem skein úr öllum andlitunum sem voru þarna. Þær fengu verðlaun skvísurnar í hennar liði og átti Telma mín stóran þátt í því.

Ég varð eiginlega klökk því að þarna var Telma ekki síðust valin, ekki sitjandi ein, ekki sitjandi á bekknum af því að hún var síst af þeim sem voru í liðinu, þarna var HÚN sjálf á sínum forsendum og skipti miklum sköpum hvort að liðið vann eða ekki.  Þetta var svo mikil reynsla fyrir mig að sjá. því að mér hefur alltaf liðið illa með hversu mikið ein hún hefur verið. 

Henni líður svo miklu betur núna með vinum sínum, fer á rúntinn með  þeim og í partý og á böll og ég gleðst innilega í hjartanu yfir þvi. Núna er þessi duglega stelpa að byrja í ökukennslu og fær æfingaleyfi von bráðar því að hún stendur sig svo vel, ég get fullyrt það að það þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að Telma brjóti lög, keyri of hratt eða virði ekki rétt annarra í umferðinni.

þessi umræða sem hefur verið með sérskóla hefur vakið hjá mér spurningar um hvernig ég myndi vilja sjá þetta í dag, ég myndi vilja hafa alla skólagöngu barna með sérþarfir eins og er á starfsbraut í Fsu því að þar eru krakkarnir í hóp með folki með svipaða erfiðleika í námi en eru samt í skólanum með öllum hinum krökkunum líka og hafa tækifæri á að taka áfanga innan almenns skólakerfis ef að getan er næg til þess.  Mér finnst þessi blöndun fín en maður veit það sjálfur að ef að maður er vanvirkur í stórum bekk eru meiri líkur en minni á að týnast þó að það sé alls ekki ætlunin hjá skólafólkinu.

Bara hugleiðingar um það sem á mér brennur... knús á línuna


Hux

Ég fór á umræðufund um sorg og sorgarviðbrögð í gær, mjög fróðlegur og gagnlegur fundur, en presturinn sem var að tala, kom oft inn á það að hafa komið til fólks þar sem maki eða barn hafði framið sjálfsvíg og það fékk mig til að hugsa.

Ef að mér hefði tekist að deyja þarna um árið, þá hefði ég misst af svo miklu, öllu sem ég hef áorkað og öllu sem fólkið mitt hefur áorkað, fyrir utan það að ég hefði skilið eftir mig opin sár sem hefðu kannski aldrei gróið til fulls. Þess vegna er ég svo þakklát fyrir það í dag að hafa snúið aftur til lífsins og fengið þetta allt sem mér hefur áskotnast í gegnum lífið undanfarin ár. 

 Þó að það komi stundir þegar mig langar ekki til að lifa lengur þá veit ég að ég geri aldrei neina alvöru úr því vegna þess að ég á svo mikið af dásamlegu fólki sem á svo miklu meira skilið frá mér en að ég gefist upp. Ég er svo rík af fjölskyldu og vinum sem að veita mér meiri styrk en þeir hafa hugmynd um, eitt lítið hrós gerir svo mikið, ég lifi á því endalaust og að vita um að svona mörgum þykir vænt um gerir lifið þess virði að lifa því.

En ég ætla ekki að fara að velta mér upp því sem ég gæti mögulega hafa misst af heldur snúa mér að því sem ég á, hef og get, því að það er langur vegur frá þeirri Jónu sem hafði gefist upp á lífinu og þeirri sem skrifar þetta nú.

Þakklætisknús á línuna...............Heart


Kvart og kvein :(

Ég væri til í að júní 2012 væri runninn upp, það styttist, en þessa stundina finnst mér ég ekki eiga neina lausa stund, því að allt snýst um lærdóm og aftur lærdóm.  Ef að ég er að gera eitthvað annað en að læra þá er ég með samviskubit yfir því að vera ekki að læra og þegar ég er að læra þá er ég með samviskubit yfir því að sinni ekki fólkinu mínu nógu vel!  Þannig að ég þjáist af stöðugu samviskubiti, síðustu daga hef ég fundið fyrir uppgjöf sem ég hef ekki fundið fyrir í laaaaangan tíma, ég nennissuekki lengur á fleiri en einn hátt. 

En ég ætla að ekki að gefast upp, það kemur ekki til greina, hvorki í náminu eða á lífinu.  Ég á bara rúmt ár eftir af skólanum og þó að ég geti ekki ímyndað mér þessa stundina að einhver vilji þiggja þjónustu mína þegar ég er útskrifuð þá held ég samt áfram með þá hugsun að ef ég hætti núna á ég alltaf eftir að sjá eftir því.

Ég á svo góða að sem að hjálpa mér á svo margan hátt og í augnablikinu finnst mér ég ekki vera að endurgjalda greiðann og skil ekkert í þessu fólki að vera eitthvað að púkka upp á mig, þar sem ég hef mjög lítið til að gefa af mér.

Þetta hljómar eins og væl og er það sjálfsagt en núna þarf ég aðeins að væla og mín aðferð er að setja það hér.  Ég er líka með samviskubit yfir því að vera með þetta væl því að það eru fáir jafn heppnir og ég.

En öll él birtir um síðir og ég verð orðin söm á ný áður en langt um líður.

knús


Bara....

Ég held að það sjáist best á hversu vel mér líður á því hversu sjaldan ég set eitthvað hér inn. Það koma tímar þar sem mér líður ekki vel en það er miklu meiri tími sem fer í að gleðjast og hafa gaman.

Það er eiginlega bara bilun í skólanum, búin að vera í mörgum heimaprófum, skila verkefnum og bara eiginlega alveg á kafi í lærdóm svo datt okkur hjónakornunum að fara í viku til útlanda ( er ekki í lagi sko!) en ég á svo frábærar skólasystur sem ég er með í verkefnum og er búin að vera svo dugleg að vinna það sem þarf svo að þetta ætti allt að ganga.

Ég hef verið dugleg að fara út að ganga og finn að það gerir gæfumuninn, bæði með líkamlega og andlega heilsu, svo ætla ég að vera komin í svo gott form í sumar fyrir gönguferðinar þá ;) Ég fór í góðan göngutúr í dag og var að hugsa um hvað ég væri nú feit og ólöguleg eitthvað, en þá datt mér bara í hug að hugsa þetta öðruvísi. Sko! Ég ætla að hætta að hugsa um fitu og útlit ( nema náttla svona eðlilegt viðhald ;) ) Ég ætla að hugsa um að vera í betra formi í sumar en áður og hugsa um hvað ég læt ofan í mig svona yfirleitt, geri það nú oftast nær, í stað þess að hugsa alltaf um að ég þurfi að breyta mér svona eða svona og eigi ekki að gera þetta eða þetta, þá ætla ég að bæta mig, ekki breyta mér. Er þetta ekki sniðugt hjá mér. Júbb ég held það núJoyful

bjartsýnisknús á línuna :)

 


Árið 2010

Mikil sorg og sömuleiðis hefur mikil gleði fyllt líf mitt þetta árið.

Systir mín dó úr krabbameini eftir snarpa baráttu þann 9.júní, þetta hefur litað líf allra í stórfjölskyldunni, bæði hefur það orðið til þess að einstaklingar innan hennar hafa orðið nánari, einnig hefur það haft áhrif í hina áttina, en þegar sárin eru enn svo ný og hvellaum, þarf að líða tími til að þau grói og þá er hægt að vinna með sorg og erfiða reynslu.  Ég hef svo einstaklega gott fólk til að leita til þegar sorgin sækir á. Þessi tími er alltaf erfiður þegar hugurinn leitar til þeirra sem farnir eru, en svo má horfa á það þannig að þau eru á þeim stað sem hvergi er betra að vera á hátíð sem slíkri.  Ég hef þá trú að þau sem eru farin leiðbeini og hjálpi mér í mínu lífi, hvað sem ég tek mér fyrir hendur.

En gleðin hefur einnig átt sér stað í lífi mínu á árinu 2010.

Sandra mín fermdist, Örvar minn útskrifaðist frá ML. 

 Ég fór í nokkrar gönguferðir á árinu, yfir Leggjarbrjót, Sveinstind og Skælinga. Ég var ekki í mínu besta formi þegar ég fór í þessar gönguferðir, en allir mínir göngufélagar, hver og einn, var þolinmæðin uppmáluð og biðu eftir mér þegar ég var við það að gefast upp, það kom einu sinni til að mér datt í hug að gæslan hefði nú ekkert skárra að gera en að sækja mig en til þess kom þó ekki. Ég er búin að panta skála fyrir næstu göngu, 15-17 júlí og ég ætla að vera í betra formi þá en síðast :) Ég hef kynnst fullt af frábæru fólku í þessum gönguferðum og þetta er frábær hópur sem mér þykir vænt um og hlakka til fleiri gönguferða með þeim.

Ég hef staðið mig vel í skólanum (náð öllu allavega ;)) og finnst alltaf auðveldara að fara norður í skólann og vera í hópverkefnum. Ég hef farið í tvö verknám, hvoru tveggja á staði sem ég dýrka. Í Hugarafli kynntist ég konu sem hefur haft gríðarleg áhrif á líf mitt, Auður, takk fyrir að vera til. Og á Grensási kynntist ég ótrúlega flottri og flinkri konu, Sissú, sem hefur kennt mér mjög mikið, bæði á lífið og það hvernig iðjuþjálfinn á að vera. Ég hef fengið góðar umsagnir úr verknáminu á báðum stöðum og það sem ég þarf að bæta er trúin á sjálfa mig ( eitthvað sem ég þarf að vinna meira með)  Svo er ekki slæmt að hafa það veganesti að fá atvinnutilboð í sumarafleysingar þegar verknáminu lauk á Grensási. Einnig hef ég verið mjög heppin að hafa skólasystur mínar með mér og þær hafa stutt mig og ég þær í náminu og hef ég eignast góðar vinkonur í þeim.

Við fórum í tveggja vikna ferðalag um norðurlöndin og til Lübeck í Þýskalandi, þar sem mamma mín er fædd og bjó til 6 ára aldurs. Þetta var mjög skemmtilegt og eru margar góðar minningar tengdar  þessari ferð.

Púkinn minn hefur verið mikið til  til friðs þó að hann hafi náð nokkrum góðum rispum á öxlinni minni, en hann hefur alltaf hundskast til baka þegar ég hef orðið nógusterk til að koma honum þangað sem hann á heima, þar er ég þakklátust fyrir þessa frábæru  fjölskyldu og vini  sem ég á.

Á nýju ári ætla ég að gera margt, fara í allskonar gönguferðir, vinna með sjálfstraustið mitt og njóta þess að eiga svona frábæra fjölskyldu og vini og kynnast enn fleira fólki.

Áramótaknús á línuna Heart


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband