29.5.2009 | 09:01
Sumarið er tíminn....
Jæja þá er ég formlega búin með fyrsta árið mitt í Iðjuþjálfun, það var orðið frekar þungbúið loftið í kringum mig þegar einkunnirnar skiluðu sér ekki fyrr en seint og um síðir en þegar lífeðlisfræðin var í höfn þá tók ég gleði mína á ný , það var eiginlega meira svona JÁ, JIBBÝ ÉG NÁÐI VÚHÚ.
En þessi umræða um misnotkun í fjölmiðlunum undanfarið um Ólaf hefur lagst dáldið á mig, voru mín fyrstu viðbrögð: Hvað er verið að vekja þetta mál upp á ný og maðurinn er dáinn, en þegar maður heyrir af líðan þeirra kvenna sem hafa komið fram skil ég þær svo mæta vel. Þetta grær aldrei, það er alltaf undirniðri. Gott dæmi: Ég fór til læknis og hann varð að þreifa á mér brjóstkassann og það var auðvitað ekkert kynferðislegt við það en mér leið bara mjög illa við það. Ég held svo oft að þetta sé gróið en svo blossar þetta upp aftur. Ég ætla að vona að það að koma fram hjálpi konunum og þær geti sett þetta á bak við sig.
En núna er sumarið komið og við erum búin að útbúa smá grænmetisgarð og sá ýmsu grænmeti og setja niður kartöflum, svo er bara vonandi að eitthvað komi upp;)
Læt þetta duga í bili...njótið sumarsins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2009 | 08:35
Prófin yfirstaðin...í bili
Jæja þá eru prófin búin og engin prófalestur meira, nema í þeim sem ég tel mig hafa fallið í.
En mikið ósköp er gott að geta bara sest niður án þess að hafa samviskubit yfir því að vera ekki að læra. Það létti bara helling á öllu fjölskyldulífinu þegar síðasta prófinu lauk, nema hvað mér fannst mér ekki ganga nógu vel í því svo að föstudeginum var eytt í rúminu í fullvissu um að ég væri ömurlega vitlaus og gæti ekkert lært!
En laugardagurinn rann upp bjartur og fagur og þá var það búið ( hefði tekið lengri tíma áður fyrr) og við eyddum deginum saman og í góðra vina hópi og meira að segja fékk mér rauðvín með matnum og grand mariner á eftir enda var ég komin í kippinn þegar var búin með 3 rauðvínsglös og eitt grand staup. Ég er þvílík óreglumanneskja,því að það er örugglega margir mánuðir síðan, ef ekki ár síðan ég drakk svona mikið, það er bara engin regla á þessu hjá mér
Núna er verið að skipuleggja göngur sumarsins og er þá Laugavegurinn aðalmálið, en svo erum við að skoða aðrar göngur eins og að fara á Heklu, og Skjaldbreiði og fleira. Ég ætla með í þessar göngur en það sem púkinn minn ólmast á öxlinni á mér: ÞÉR TEKST ÞETTA ALDREI, ÞAÐ ER ALVEG EINS GOTT AÐ SLEPPA ÞESSU, ÞÚ HEFUR EKKERT Í ÞETTA AÐ GERA. En núna ætla ég ekkert að hlusta á hann, ég ætla í þessar göngur og hananú! Langhelgisgæslan hefur aldrei þurft að sækja mig neitt, þannig að ég á það bara inni! Ég ætla að vera rosadugleg að æfa mig, bæði í fjalllendi og móum þannig að ég rúlla þessu upp!
Ég ætla að stoppa hérna, það birtist örugglega á facebook þegar ég fæ einkunnirnar.
Knús á línuna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.4.2009 | 21:19
hausinn...
er fullur af gagnslausum upplýsingum, áðan sagði ég Söndru allt um fílamanninn en man ómögulega það sem ég þarf að vita um tölfræði. Merkilegt hvernig hugurinn lætur!!
En það styttist í því að heilinn geti farið í hlutlausann þ.e.a.s ef ég næ öllu og þarf ekki að taka neitt aftur í endann á maí, held reyndar að allir á heimilinu leggist á bæn á meðan ég er í prófi því að það er óneitanlega mikið álag á allri fjölskyldunni þegar ég sit og læri og óskapast þess á milli yfir því hvað ég er vitlaus og hvað ég haldi eiginlega að ég sé að gera með að fara í háskólanám eins vitlaus og ég er.
En þetta líður allt saman og bráðlega get ég farið að telja og kyngreina minklinga, ( við Sandra ákvöðum að breyta nafninu á hvolpunum í minklinga s.br. kettlinga). En fyrst næ ég þessum prófum og síðan ætla ég að eiga einn dag á náttfötunum og lesa skáldsögu og SÍÐAN gera eitthvað af viti.
Knús á línuna og hugsið tölfræðilega til mín ámilli 14 0g 17 á morgun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2009 | 20:18
vor í lofti
Mikið verður allt dásamlegt þegar vorið er komið, fór í göngu í dag og hlustaði á fuglasönginn og naut þess að vera í náttúrunni. Það fylgja alltaf góð fyrirheit vorinu, loforð um skemmtilega tíma framundan. Mér líður alltaf best á vorin.
Við erum búin að skipuleggja göngu um Laugaveginn í sumar, þá hefur maður eitthvað að hlakka til og þjálfa sig fyrir. Nú er bara að fara að ganga á fjöllin í nágrenninu og fá smá brekkuæfingu.
En ég ætla bara að halda áfram að læra fyrir próf og geyma alla drauma um fjallgöngur fram yfir próf.
Knús á línuna...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2009 | 20:36
Prófalestur....
Þá eru páskarnir að verða liðnir og alvaran að taka við. Fyrsta prófið er 27.apríl og færist nær og nær, það er að gera vart við sig nettur prófkvíði, reyndar ekki svo nettur, það er að myndast stór og mikill hnútur í maganum á mér. En ég er búin að skipuleggja lesturinn og ætla að reyna að fara eftir því. Síðan ætla ég að fara á mánudagskvöldum og hitta stelpur úr skólanum og fara yfir gömul próf,´best að gera það sem maður getur til að undirbúa sig fyrir þessa törn, þá ætti þetta að ganga allt saman.
En þetta hlýtur allt að ganga ( krossum fingur)
Knús á línuna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2009 | 15:35
jæja komin heim og fer ekki aftur að heiman í laaaaangan tíma....
Þá er maður komin endanlega heim þetta skólaárið.
Þetta var mjög skemmtilegt og fróðlegt að vera á Reykjalundi og ótrúlega margir sem mundu eftir mér síðan ég var þar. Það var gaman að koma þarna og horfa á málin frá öðru sjónarhorni, vera eiginlega hinum megin borðsins. Við vorum sex nemar á Reykjalundi en vorum síðan tvær og tvær saman hjá einum iðjuþjálfa. Við fengum að taka viðtal við einn skjólstæðing og fylgjast með viðtölum við tvo aðra, svo vorum við á ýmsum fundum og það var alveg frábært að hlusta á og fylgjast með iðjuþjálfa að störfum því að þeir nota hugtökin sem maður er búinn að vera að læra og það ýtir undir mann að halda áfram.
Ég er búin að vera óskaplega eitthvað vanstillt undanfarið og efast stöðugt um sjálfa mig og það sem ég er að gera. En það rann upp fyrir mér, þegar ég sat í matsalnum á Reykjalundi sem starfsmaður ekki sem sjúklingur, hvað ég er komin langa leið síðan ég var þar síðast, á fimm árum. Ég er alltaf að efast um að ég valdi þessu starfi en ég held bara að ég verði fínn iðjuþjálfi og það er enginn fullkominn og allir gera einhver mistök svo að ég er ekkert frábrugðin öðru fólki fyrir utan hvað ég tek það nærri mér, púkinn minn öskrar á mig af öllum lífs og sálar kröftum svo að ég heyri bara ekki hvað aðrir eru að segja í kringum mig. Í dag er ég bara sátt við lífið og tilveruna og vona bara að lækkatakkinn á púkanum fari að virka eitthvað af viti
Endilega tjáið ykkur, ef það er einhver sem kíkir hérna inn.
Knús handa öllum sem kvitta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2009 | 21:39
Heima...
Komin heim
Þetta er búin að vera hrikalega erfið vika, andlega þ.e.a.s, var að flytja verkefni í gær sem gekk bara vel þar til ég var búin! Þá mátti minnstu muna að ég færi út grátandi því mér leið svo illa, þegar ég fór að fara yfir í huganum hvað ég sagði, hvernig ég sagði það, hvort ég hafi sagt það rétt, hvort ég hafi örugglega ekki skemmt allt fyrir hinum í hópnum, við fáum örugglega ömurlega einkun því að ég eyðilagði þetta allt saman! Það eru margir sem eru búnir að segja hva, þetta er bölvuð vitleysa í þér, þú varst svo flott en ég heyri það ekki því að ég heyri bara: ÞÚ ERT ÖMURLEG; ÞÚ EYÐILEGGUR ALLT, ég vil svo gjarnan trúa því að ég hafi bara rúllað þessu upp en mér finnst ég vera hrikalega geðveik enda er ég það, ég heyri raddir sem segja mér hvað ég er ömurleg. Svo að það ætti kannski að loka mig einhversstaðar inni og henda lyklinum En sem betur fer hef ég skjól hjá frænku minni og ég gæti ekki gert þetta, ég færi örugglega heim í miðri viku. Jæja ég ætla bara að taka töflurnar sem lækka raddirnar mér líður örugglega miklu betur á morgun.
Það hlýtur bráðum að fara að koma hamingjublogg... seinna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2009 | 14:39
Stór pakki!
Ég er búin að vera hálfan dag í skólanum og finnst ég vera búin að vera í viku!
Mér finnst ég einhvern vegin þurfa að losa mig frá mér til að geta litið á það sem við erum að læra án þess að tengja það við mig eða mína. Það er svo mikið verið að tala um sjálfið og hvernig við högum okkur út frá því og mér finnst ég alltaf geta rétt upp hönd og sagt, já ég hef lent í því. Kannski er þetta bara bjánalegt en mér finnst mín reynsla koma í veg fyrir að ég læri og geti litið á hlutina úr fjarlægð. Ef það er talað um andlega líðan, þá kemur mér í hug þunglyndi, félagsfælni og kvíði, þegar er verið að tala um líkamlega hluti þá hugsa ég já, vefjagigtin hefur þessi áhrif, svo þegar er verið að tala um stór áföll, þá dettur mér í hug þetta kynferðislega ofbeldi sem ég varð fyrir og sjálfsvígstilraunin og auðvitað pabbi. Mér finnst þetta allt í einhverjum hrærigraut og veit eiginlega ekki hvað ég á að gera við þessa reynslu sem ég hef. Alla vega finnst mér það þvælast fyrir mér þessa stundina. Kannski á þetta eftir að nýtast mér seinna en það gerir mér ekkert gagn núna. Ég er alveg að bræða úr kollinum á mér því að þetta fer allt hring eftir hring eftir hring.
En kannski lagast þetta úr því ég er búin að skrifa það niður.
Later....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2009 | 08:27
Skólinn...
Jæja í dag fer ég norður og það eru blendnar tilfinningar tengdar því, ég hlakka bæði til og kvíði fyrir. Eg hlakka til að hitta hinar stelpurnar og bera saman bækurnar um námið og kennarana. Ég hlakka til að hitta Lilju og co, alltaf gott að vera hjá þeim. Þetta verður strembin vika á mánudaginn er kennsla til 7 og á fimmtudaginn til 5 en hina dagana til 4, en til þess er maður þarna, að læra. Svo á ég að kenna þremur öðrum skapandi iðju ( föndur) og það er nettur kvíði samfara því, svo eigum við að kynna tvö hópaverkefni sem við erum búin að vera að vinna, það verður ekkert rosamál, enda búin að fara vel í gegnum það í félagsfælninámskeiðinu.
Ég finn að þetta nám tekur meiri toll af mér en fjölbrautaskólinn, vefjagigtin hefur sjaldan verið jafnslæm, mikill bjúgur með tilheyrandi stirðleika, verkir á ótrúlegustu stöðum, vöðvabólga á ótrúlegustu stöðum, í kjálkaliðnum og augnvöðvunum. En það er "bara" mánuður í próf svo að ég er bráðum að komast í sumarfrí. En þunglyndið hefur verið næstum til friðs, fyrir utan nokkur köst sem hafa ekki verið mjög djúp þannig að svona almennt hef ég það ágætt, maður verður bara að sníða sér stakk eftir vexti og gera ekki mikið meira en maður getur.
Ég er að fara í fermingu á eftir hjá frænku minni, þessi er dáldið uppáhalds, væntanlega af því að hún er svo óheppin að vera dáldið lík mér. En til hamingju með daginn kæra frænka.
Knús á línuna og hugsið til mín í vikunni ( helst eitthvað fallegt) .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2009 | 08:20
kvíði, kvart og kvein
Ég vaknaði upp úr 6 í morgun, sem er reyndar mjög eðlilegt fyrir mig því að ég er að fara norður á sunnudaginn og kvíðinn er farinn að gera vart við sig. Þetta er ótrúlega skrýtið, sama hvað ég segi sjálfri mér oft að þetta sé ekkert mál ( sem það er) og þó að ég viti að það er dekrað við mig á alla lund, þá kvíði ég alltaf fyrir. Og það byrjar með því að ég hætti að geta sofið, svo verð ég pirruð og verð ömurlega leiðinleg ( nei, ég er ekki alltaf leiðinleg). En svo þegar ég er komin norður og búin að vera í einn tvo daga þá hverfur kvíðinn.
En núna verður Diddi ekki heima, hann er að fara til Danmerkur, og stelpurnar verða hjá ömmu sinni og Telma verður 16 ára á föstudeginum sem ég kem heim svo að það verður örlítið erfiðara að fara að heiman svo er ég alltaf búin að lofa að vera aðeins lengur fyrir norðan, mér finnst eiginlega ömurlegt að koma bara seinni partinn deginum áður en skólinn byrjar og fara svo sama dag og skólinn er búinn, finnst ég ekki vera mjög kurteis. Svo lofa ég alltaf að næst ætli ég að vera lengur en þetta næst er ekki komið ennþá.
jæja þetta er nú bara kvart og kvein og ég veit að mér á eftir að líða vel fyrir norðan, skemmta mér vel á "Fúlar á móti" og hafa það gott. En eitt ætla ég ekki að gera fyrir norðan, ég ætla ekki að borða neitt nammi!! Hef alltaf dottið dáldið í það, með þá afsökun að þetta sé nú bara núna og ég hætti þegar ég kem heim en núna ætla ég bara að sleppa því.
Stundum lætur heilinn minn ekki að stjórn og þess vegna líður mér oft frekar illa þó að það sé ekki nokkur ástæða fyrir því og þá líður mér oft verr vegna þess að ég VEIT að þetta er frekar fáránlegt en segið heilanum mínum það....
Knús handa öllum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)