Árið 2010

Mikil sorg og sömuleiðis hefur mikil gleði fyllt líf mitt þetta árið.

Systir mín dó úr krabbameini eftir snarpa baráttu þann 9.júní, þetta hefur litað líf allra í stórfjölskyldunni, bæði hefur það orðið til þess að einstaklingar innan hennar hafa orðið nánari, einnig hefur það haft áhrif í hina áttina, en þegar sárin eru enn svo ný og hvellaum, þarf að líða tími til að þau grói og þá er hægt að vinna með sorg og erfiða reynslu.  Ég hef svo einstaklega gott fólk til að leita til þegar sorgin sækir á. Þessi tími er alltaf erfiður þegar hugurinn leitar til þeirra sem farnir eru, en svo má horfa á það þannig að þau eru á þeim stað sem hvergi er betra að vera á hátíð sem slíkri.  Ég hef þá trú að þau sem eru farin leiðbeini og hjálpi mér í mínu lífi, hvað sem ég tek mér fyrir hendur.

En gleðin hefur einnig átt sér stað í lífi mínu á árinu 2010.

Sandra mín fermdist, Örvar minn útskrifaðist frá ML. 

 Ég fór í nokkrar gönguferðir á árinu, yfir Leggjarbrjót, Sveinstind og Skælinga. Ég var ekki í mínu besta formi þegar ég fór í þessar gönguferðir, en allir mínir göngufélagar, hver og einn, var þolinmæðin uppmáluð og biðu eftir mér þegar ég var við það að gefast upp, það kom einu sinni til að mér datt í hug að gæslan hefði nú ekkert skárra að gera en að sækja mig en til þess kom þó ekki. Ég er búin að panta skála fyrir næstu göngu, 15-17 júlí og ég ætla að vera í betra formi þá en síðast :) Ég hef kynnst fullt af frábæru fólku í þessum gönguferðum og þetta er frábær hópur sem mér þykir vænt um og hlakka til fleiri gönguferða með þeim.

Ég hef staðið mig vel í skólanum (náð öllu allavega ;)) og finnst alltaf auðveldara að fara norður í skólann og vera í hópverkefnum. Ég hef farið í tvö verknám, hvoru tveggja á staði sem ég dýrka. Í Hugarafli kynntist ég konu sem hefur haft gríðarleg áhrif á líf mitt, Auður, takk fyrir að vera til. Og á Grensási kynntist ég ótrúlega flottri og flinkri konu, Sissú, sem hefur kennt mér mjög mikið, bæði á lífið og það hvernig iðjuþjálfinn á að vera. Ég hef fengið góðar umsagnir úr verknáminu á báðum stöðum og það sem ég þarf að bæta er trúin á sjálfa mig ( eitthvað sem ég þarf að vinna meira með)  Svo er ekki slæmt að hafa það veganesti að fá atvinnutilboð í sumarafleysingar þegar verknáminu lauk á Grensási. Einnig hef ég verið mjög heppin að hafa skólasystur mínar með mér og þær hafa stutt mig og ég þær í náminu og hef ég eignast góðar vinkonur í þeim.

Við fórum í tveggja vikna ferðalag um norðurlöndin og til Lübeck í Þýskalandi, þar sem mamma mín er fædd og bjó til 6 ára aldurs. Þetta var mjög skemmtilegt og eru margar góðar minningar tengdar  þessari ferð.

Púkinn minn hefur verið mikið til  til friðs þó að hann hafi náð nokkrum góðum rispum á öxlinni minni, en hann hefur alltaf hundskast til baka þegar ég hef orðið nógusterk til að koma honum þangað sem hann á heima, þar er ég þakklátust fyrir þessa frábæru  fjölskyldu og vini  sem ég á.

Á nýju ári ætla ég að gera margt, fara í allskonar gönguferðir, vinna með sjálfstraustið mitt og njóta þess að eiga svona frábæra fjölskyldu og vini og kynnast enn fleira fólki.

Áramótaknús á línuna Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband