17.9.2009 | 06:42
Jæja þá....
Er ég komin í birtuna aftur, þetta var dáldið djúp lægð sem kom yfir mig núna, svona djúp hefur hún ekki verið í langan tíma. Ég má alltaf eiga von á þessu en einhver vegin kemur þetta mér alltaf jafnmikið á óvart. Það er talað um í sjálfshjálparbókum að maður eigi að undirbúa sig fyrir köstin en ég hef bara ekki hugmynd hvernig ég á að fara að því, því að þegar köstin koma verð breytist ég bara í aðra manneskju sem er alveg sama nema um eymd sína og líður vel ( þannig séð) í eymdinni.
Sjálfsagt hef ég skrifað þetta allt áður, en eins og ég hef sagt þá er þetta mín sáluhjálp, því að þegar ég hef sett þetta niður á blað ( eða blogg) þá er ég laus við þetta, þá hef ég komið þessu frá mér og þarf ekki að hugsa um það meir.
Jæja en nú er komið að áskorun vetrarins, mig er búið að langa til að fara aftur í kirkjukórinn í langan tíma en verið staðföst í þeirri trú að ég geti bara ekki sungið og skemmi bara kórinn með því að reyna að gaula eitthvað EN ég ætla að fara í hann alla vega fram að áramótum og sjá síðan til. Ég verð að fara á meðal fólks því að ef að ég einangra mig þá versnar félagsfælnin og þá er lífið mun erfiðara fyrir mig og alla í fjölskyldunni. Þó að mér finnist ég ekki geta sungið þá ætla ég samt í kórinn, þá verður alla vega hægt að skemmta sér yfir því í messunum;) Mér fannst svo gaman þegar ég var í kórnum og vona bara að það verði það þegar ég fer aftur í hann. Svona getur félagsfælnin leikið mann, maður verður fullviss um að maður sé ömurlegur í einhverju sem maður gat alveg áður.
En það er svo margt jákvætt að gerast, Telmu líður vel í nýja skólanum, hún er komin á sund og boccia æfingar hjá Suðra, íþróttafélagi fatlaðra á suðurlandi og finnst það bara gaman. Sandra er orðin þvílík gell(gj)a farin að nota maskara og spá í fötum, það er bara gaman að henni. Örvar er í fjórða bekk og gengur þokkalega ( held ég) því að mömmur eru ekki látnar vita um stöðu mála. Ég er byrjuð í náminu á fullu og nóg að gera við að hlusta á fyrirlestra og gera verkefni ásamt því að fara í sjúkraþjálfun og reyna að hreyfa mig eitthvað.
Þannig að í dag er lífið dásamlegt
Knús á línuna...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.