25.1.2009 | 09:46
komin heim...
Þá er ég komin heim eftir mjög skemmtilega en krefjandi staðlotu.
Þetta var mjög skemmtilegt allt saman fannst mér, þangað til að kom að því að finna sér hópa til að starfa í, þá munaði ekki miklu að ég gengi út og kæmi ekki meir. Hópastarf finnst mér gríðarlega erfitt og væri sko meira en lítið til í að vinna ein með verkefnin, EN ef að ég ætla að verða iðjuþjálfi þá VERÐ ég að geta unnið í hóp, með hópa og allt mögulegt sem snýr að hópum, ég þarf að æfa mig í þessu á einhvern hátt, bara eftir að finna út hvernig en ég ÆTLA.
Það var margt gert og maður er margs fróðari eftir vikuna, á tímabili hélt fólkið mitt að ég væri í leikskóla því að við vorum að mála með fingramálningu, klippa og líma, í leikjum og dansi. Þetta reyndi á mitt músarhjarta allt saman en ég hélt þetta út.
Það kom stúlka með fyrirlestur til okkar, hún er mikið fötluð í líkamlega en höfuðið er svo sannarlega í lagi. Hún ákvað það þegar hún var 10 ára og sá Krístínu Rós verða heimsmeistara í sundi að hún ætlaði að setja heimsmet í sundi, þá var hún bæði ósynd og mjög vatnshrædd. En í fyrra, átta árum síðar setti hún heimsmet í sínum flokki! Ef að þetta er ekki baráttuandi og óbilandi trú á sjálfan sig þá er ég illa svikin.
Mér fannst ég ekki mjög merkileg við hliðina á þessari stúlku, sem lætur ekkert stöðva sig, með mín vandamál. Mér fannst þessi fyrirlestur líka gott vitni um heilsteypta og frábæra foreldra, því að þeir ákváðu að vera ekki að pakka henni í bómull, heldur komu þeir fram við hana eins og hún væri ófötluð. Það var eftir þennan fyrirlestur að ég ákvað að Telma gæti alveg farið að læra undir bílprófið og fengið æfingaleyfi. Ég hafði einmitt verið að draga úr henni með það þvi að mér fannst hún ekki tilbúin, ég held reyndar að það sé ég sem er ekki tilbúin.
En það sem ég er heppin að eiga frænkur á Akureyri, þarna er ég allan tíman í fríu fæði og húsnæði, með mikinn stuðning af þeim og get rætt um allt sem mig vantar að tjá mig um. Ég er örugg þarna og líður vel, kvíðinn er í lágmarki, sem annars væri frekar mikill ef ég ætti að vera ein einhversstaðar.
Þannig að ég er mjög ánægð með allt saman og er að ná úr mér þreytunni, því að þetta reynir heilmikið á mann, að sitja allt í einu 8 tíma og hlusta á kennarana eða þurfa að dansa við einhvern.
En hafið það sem best......
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.