21.12.2008 | 22:12
Veruleikaskot
Ég áttaði mig allt í einu hversu fólkið mitt þarf að líða fyrir þunglyndið mitt, þó að mér líði mun betur er ekki þar með sagt að ég reyti alveg af mér brandarana og leiki á alls oddi og núna fékk ég eitt af þessum veruleikaskotum ( veit ekkert gott orð yfir wake up call) sem að dynja stundum á mér og þá uppgötva ég hvað þau þurfa oft að þola mikið meira en aðrir í kringum mig.
Þannig var það að við vorum í skötuveislu á Selfossi hjá mágkonu minni, þar kemur öll fjölskyldan saman og borðar úldinn mat, nema þeir sem hafa eitthvað vit í kollinum borða lasagna og þegar við erum á leiðinni heim í bílnum segir Telma:" Þú ert alltaf svo hress þegar þú hittir alla" eða eitthvað á þessa leið og ég spyr hvort henni finnist ég ekki vera það heima, þá svarar hún: " eiginlega ekki". Maður verður óneitanlega hugsi þegar maður heyrir þetta, ég eiginlega veit ekki hvernig ég á að breyta þessu því að mér finnst ég reyna að vera hressari en ég í rauninni er en svo virðist raunin ekki vera eftir þessum orðum hennar Telmu minnar að dæma, sem eiga btw ( hvað er góð þýðing á þessu? í framhjáhlaupi??) mikinn rétt á sér því að auðvitað eiga þau að njóta þess frekar en fólk sem ég hitti sjaldnar að mér líður betur.
Raunar myndi það ekki skipta máli hvernig mér liði innan um annað fólk en nánustu fjölskyldu þá set ég upp gleðigrímuna sem ég tek niður um leið og ég er komin í "öruggt" skjól þegar ég er þunglyndiskasti. Ef að það koma gestir hingað án þess að gera boð á undan sér og ég er í þunglyndiskasti þá getur sá getur stoppað heillengi og farið heim til sín án þess að hafa minnsta grun um að eitthvað ami að, ég hef oft sagt að geðsjúklingar verði oft heimsins bestu leikarar því að þeir verða svo flinkir í að blekkja fólkið í kringum sig um að það sé allt í lagi hjá þeim.
Mér hefur fundist ég verið mjög opin með að ræða um sjúkdóminn og allt það og alltaf orðið dáldið reið út í þá sem ekki eru jafn opnir um að ræða um sín veikindi. EN kannski er ég ekkert skárri því að upp úr mér dregst varla orð þegar mér líður illa, hvorki við mína nánustu né aðra. Diddi segir að hann þurfi stundum að lesa bloggið mitt til að vita hvernig mér líður, hversu öfugsnúið er það??
Æ þetta er smá svona heilabor (sbr bora í nefið: picking your nose/brain, fer að gefa út orðabók fljótlega;))
Hafið þið það sem best, ég ætla að reyna láta fólkið mitt hafa það aðeins betra og vera hressari í bragði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.