10.12.2007 | 09:41
Get bara ekki lært meira...
Er búin að eyða helginni í að læra fyrir íslenskupróf á eftir og held bara að ég læri yfir mig ef ég les einn staf í viðbót. Mikið er ég nú samt fegin að þetta sé eina prófið sem ég tek því að ef ég þyrfti að læra undir mörg myndi ég enda á kleppi eins og stúdentinn í Englum Alheimsins búin að læra yfir mig.
Það er allt að klárast hjá okkur, pelsun og verkun klárast í vikunni, aldrei verið fyrr búin svo að þetta verður rólegt líf fram að jólum hjá mér, ætla bara slappa af og kannski baka eina smákökutegund sjálf, dæturnar baka hinar, er búin að versla jólagjöfina handa eiginmanninum svo að það er frá. Við mægurnar fórum í bæinn á föstudaginn og keyptum jólafötin á þær, svo að þær enda ekki í jólakettinum, reyndar vorum ég og eldri dóttirin ekki alltaf sammála um fötin hennar en síðan fundum við mjög fín föt sem við vorum báðar ánægðar með, hið besta mál allt saman. Það var mun skemmtilegra að skoða föt núna á stelpurnar ( og mig) en undanfarin ár, það var hvorki allt bert á milli laga eða svo aðskorið að tannstöngull hafi varla komist í flíkina.
Ég ætla bara að taka fram vegna umræðu í fjölmiðlum undanfarið þá vil ég að börnin mín fræðist um kristna trú og aðra trú líka og alist upp í kristni og syngi " Ó GUÐ vors lands" og að íslenski fáninn verði áfram með krossi og að allt þetta tuð í siðmennt og vantrú sé mjög yfirborðskennt, ég var að spá í hvort að þau haldi jól? eða einhverjar aðrar kristnar hátíðir hátíðlegar? ef svo er er það ekki bara hrein og klár hræsni?? Pæling
Hætt að tuða..
Hafið það sem best.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.