8.4.2013 | 09:29
lengi lifir í gömlum glæðum
Konan hefur haldið því fram sem fastast að hún sé ekki lengur með félagsfælni, sem er rétt í flestum tilfellum. Hún heldur því meira að segja fram að hún geti miðlað öðrum sem eru með félagsfælni, sem er rétt í flestum tilfellum. Þegar hún er Iðjuþjálfinn þá er hún örugg og veit hvað hún er að gera og er bara góð í því sem hún gerir en stundum læðist gamli púkinn fram og fer að telja konunni í trú um að hún sé alls ekki svona góð í þessu. Það eru þeir sem hún aðstoðar sem eru svona flottir og leyfa konunni að halda að það sé hún sem fái þessar framfarir fram en í raun eru skjólstæðingarnir hennar bara svona aumingjagóðir!
Þessar hugleiðingar koma fram vegna þess að það er verið að breyta heima hjá konunni og mikið af allskonar iðnaðarmönnum ganga þar inn og út og konan finnur fyrir gamalkunnum kvíða þegar hún þarf að taka á móti þessum mönnum og sýna þeim hvað þeir eiga að gera eða jafnvel bjóða upp á kaffi! það er hræðilegt hreint út sagt!
En konan leggur sig fram við að nota bjargráðin sem hún gefur skjólstæðingum sínum og sér fram á að hún lifi þetta alveg af! Og hún ER góð í þessari vinnu og ekki síst vegna þess að hún skilur svo vel hvernig skjólstæðingum hennar líður!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.