7.7.2011 | 18:00
Tímamót
Núna get ég sagt að ég VAR félagsfælin, þetta er mikill áfangi á minni leið úr kvíða og fælni. Ég var að spjalla við samstarfskonu mína og sagði þetta og það rann upp fyrir mér að það væri svo sannarlega satt, þetta veitir mér mikla ánægju og finnst ég geta allt og gerir mig enn ákveðnari í að sigrast á öðrum erfiðleikum sem ég stend frammi fyrir.
Ég fékk fyrstu launin mín þessi mánaðarmót og ég var eins og litill krakki að fá fyrstu launin, enda hef ekki unnið utan heimilis í 12 ár.
Víst er ég þreytt þegar ég kem heim úr vinnunni, en þetta er svo mikils virði fyrir mig, ég hef alltaf skammast mín hálfgert að þiggja örorkubætur þó að ég sé ekkert að því að aðrir eru á þeim, allavega þeir sem eru á réttum forsendum, ég bara vil ekki vera á þeim. Þessi vinna er liður í því að "æfa" mig fyrir þau framtiðarstörf sem ég á vonandi eftir að sinna.
Svo styttist í gönguferðina okkar árlegu, ég hlakka auðvitað mikið til, er viss um að þetta verður frábær ferð, en því miður er púkinn minn á öxlinni að segja að ég verði bara dragbítur og öllum finnst ég vera til trafala. En svo hugsa ég líka að þau láti mig vonandi vita ef að þeim finnst leiðinlegt að bíða eftir mér, því að ég get alveg tekið því, þá gæti ég verið trúss, en ég er bara þakklát fyrir að eiga góða að sem styðja mig. Svo hefur gæslan aldrei sótt mig neitt þannig að ég á það inni ;)
En knús á línuna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.