Biðin..

Ég sit hér yfir systur minni og hlusta á andardráttinn hennar, verð ákaflega fegin í hvert sinn sem ég heyri hann.  Þó að ég viti að það sé fyrir bestu að hún fái að fara sem fyrst, langar mig ekki til að kveðja.  Það er skelfilegt að bíða eftir að einhver sem maður elskar deyji, ekki síst manneskja í blóma lífsins.

Ég hef oft hugsað til þess óréttlætis sem mér fannst vera þegar pabbi dó skyndilega en þó eftir mikil veikindi, en ég held að það hafi verið auðveldara þegar upp er staðið, þá þurftum við ekki að bíða eftir dauðanum.  Og hann þurfti ekki að veslast upp smátt og smátt, það er betra að eiga minninguna um hann í þokkalegu standi en að horfa á ástvin verða ekki að neinu fyrir framan augun á manni og bíða eftir næsta andardrætti.

Í upphafi biðarinnar varð ég svo reið út í fólk og sjálfa mig líka, þegar verið var að kvarta yfir smávægilegustu verkjum að mér fannst, ég hugsaði sem svo að þetta hefði nú ekki dauðann í för með sér og því ættu kvartanir engan rétt á sér en ég held að það hafi verið eitt af þeim stigum sem farið er í gegnum í sorgarferlinu.  Það hafa allir rétt á að kvarta, hversu lítilmótlegt sem það er.  Ég er ekki reið lengur, ég er á því í dag að fresta ekki því sem mann langar til að gera vegna þess að það gefst betri tími til þess seinna, kannski kemur ekkert seinna!  Ég ætla að hætta að skamma sjálfa mig fyrir allt mögulegt því að þegar upp er staðið skiptir ekkert máli nema þeir sem manni þykir vænt um og það sem góðu stundirnar gefa okkur.  Það man enginn nema ég eftir því hvað ég sagði þarna eða hvað ég gerði mig að miklu fífli þarna.  Þetta er ekki það sem mín verður minnst fyrir.

Mér finnst ekki erfitt að vera hjá henni, mér þykir mjög vænt um að geta gert eitthvað fyrir hana þó að það sé mjög takmarkað, ég gleðst jafnvel yfir því að fara með hana út að reykja eins fanatísk og ég er á reykingar. En markmiðið er að henni líði sem best ef að það felur í sér að kveikja í sígarrettunni fyrir hana þá geri ég það og það skiptir ekki máli mitt álit á reykingum. 

Ég trúi því að þegar maður deyr taki þeir sem eru farnir á móti manni, öll depurð og sorg gleymist og maður öðlast sálarró og engar gamlar syndir lifa með manni, það er eins og nýtt upphaf, óskrifað blað fyrir utan þann kærleika sem hver ber með sér. Þessi kærleikur verður síðan verndarhjúpur yfir þá sem syrgja, að þeir megi halda áfram með lífið og njóta fallegu minninganna.

 

Kærleiksknús


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband